Frá töffaranum !

Mig langar að setja nokkur orð hér inn á styrktarsíðuna mína,sem ég samþykkti að mínir nánustu ættingjar og vinir mundu opna með mínu leyfi. Til að byrja með var ég ekki tilbúin í þetta, en í ljósi aðstæðna minna í dag ákvað ég að láta tilleiðast.

Ég var hvött áfram af mörgum og meðal annars af öðrum sem hafa gert slíkt hið sama. Ég veit að þetta er stórt skref og eflaust margir sem hafa eitthvað út á þetta að setja.
En ég hef einungis ákveðið að hugsa um mig og mína í þessu samhengi og þar sem fjárhagurinn minn hefur verið mjög erfiður undanfarin ár þá hef ég ekki um margt að velja.

Mig langar að geta átt einhvern gæðatíma með mínum nánustu, án þess að vera að farast úr áhyggjum, nóg er nú samt.

Krabbameinið mitt verður ekki læknað, það er orðið alveg ljóst og nú vinna læknarnir að því hörðum höndum að halda því í skefjum. Ég hef þurft að fara í gegnum marga erfiða dali í þessari göngu minni og það hefur kostað bæði fjárhagsáhyggjur og andlega byrði. Sálin mín þolir ekki mikið meira álag.

Þar sem ég veit sjálf að ástandið í þjóðfélaginu hefur ekki verið gott í langan tíma þá finnst mér enn erfiðara að biðja um hjálp. En margt smátt gerir eitt stórt og það hefur svo oft sannast hér á okkar landi að samkenndin er mikil þegar á reynir. Því biðla ég til ykkar kæru landsmenn að hjálpa mér til þess að eiga áhyggjulausan tíma það sem eftir er.

Enginn veit hvenær kraftaverkin gerast. Ef ég lendi í einu slíku mun þessi sjóður verða notaður til styrktar öðrum sem eiga um sárt að binda og mun ég tilnefna styrktarsjóð krabbameinsveikra barna í því tilefni.

Sambýlismanninum mínum var sagt upp störfum og er því atvinnulaus í dag. Hann hefur stutt mig með ráðum og dáð eins og hann best getur, en þetta var í raun annað áfall fyrir okkur. Því er meiri ástæða fyrir mig að þiggja þessa hjálp sem gæti létt mér lífið svo gríðarlega mikið.

Fyrirfram vil ég biðja guð að blessa ykkur og þakka fyrir stuðninginn í minn garð.

Ást og virðing.

Björk töffari    blog.central.is/bjorkandersen


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Elsku Björk - þó nú væri - hér verður kroppað og er í raun minnsta mál að kroppa ögn meir svo þú getir haft áhyggjuminni tíma mín kæra.

Sjálf hef ég verið haldin sjálfsofnæmissjúkdómi nú um tveggja ára skeið og ekki getað unnið - en Það er einungis verkefni.  Þú ert algjör hetja stelpa mín og svo sannarlega var það eitt af því fyrsta sem ég tók eftir í fari þínu á Vífó hér forðum daga.  Vona að þú hafir kraft til þess að gera skemmtilega hluti líka, þrátt fyrir erfiða meðferð og erfiða heilsu.

Fylgist með skrifum þínum !

 Gangi þér vel í þessari baráttu !

Alma

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 22.5.2009 kl. 12:25

2 identicon

SmáKropp sjálfsagður hlutur -erum við ekki af sama meiði ?

Gangi þér sem allra best

Gunninga

Guðrún Inga Andersen (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband