Töffarinn í Kastljósi Sjónvarpsins
31.5.2009 | 08:27
Það er okkur mikið ánægjuefni hversu vel hefur verið tekið á móti hjálparkalli okkar.
Björk er afar þakklát og sendir góðar kveðjur til allra sem hafa stutt hana með hvatningarorðum og framlögum. Hún er að ganga í gegnum erfiða geisla og lyfjameðferð núna. Framhald á þeirri meðferð verður ákveðið í byrjun júní þegar hægt verður að taka myndir og kanna hvaða áhrif meðferðin hefur haft.
Við viljum vekja athygli ykkar á umfjöllun Kastljósins um kostnað Bjarkar við krabbameinsmeðferðina og viðtal við hana. Ekki missa af þeirri umfjöllun, sem fer í loftið í kvöld, mánudaginn 8 júní,2009.
Kveðja frá stuðningsfólki.
Bloggar | Breytt 8.6.2009 kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Léttum Björk lífið
14.5.2009 | 10:59
Björk Andersen greindist með brjóstakrabbamein í feb.2006. Í mars sama ár var vinstra brjóstið fjarlægt og eitlar undir hendi. Við tóku nokkrir mánuðir í lyfjameðferð og eftir það mánuður í geislameðferð. Meðferðin reyndist Björk erfið og vegna mikilla aukaverkana, blóðtappa og sýkingar í lungum, lá hún meira og minna á spítala út árið 2006. Þol hennar var lítið og ónæmið jókst.
Árið 2007 var hún sett á hormónabælandi krabbameinslyf sem áttu að koma í veg fyrir endurkomu krabbameinsins. Á þeim lyfjum var hún enn í desember 2008 þegar krabbamein greinist í hægra brjósti. Hún fór aftur í aðgerð janúar 2009 og fimm æxli fjarlægð með hægra brjóstinu og eitlar undir hendi sem tengjast sogæðakerfinu. Eftir fylgdi lyfjameðferð.
Við frekari rannsóknir komu í ljós meinvörp í beinum. Sennilegt þykir að þau hafi þegar verið til staðar árið 2006, en ekki verið lesin rétt á myndum. Síðasta mánuð hafa ný meinvörp fundist og þau sem fyrir voru hafa stækkað.
Í dag er Björk í geislameðferð þar sem gerð er tilraun til að hefta vöxt krabbameinsins og halda því í skefjum. Vegna mikilla verkja er Björk á stórum skömmtum morfíns og stera. Hún fær kvíðastillandi lyf til að hjálpa sér gegnum daginn og svefnlyf fyrir nóttina.
Björk hefur verið virkur meðlimur AA samtakanna til fjölda ára og hefur leitt þar fundi, nú síðast talaði hún á afmælisfundi samtakanna í Laugardagshöllinni. Hún þekkir mikilvægi þess að leita sér aðstoðar og er bæði í sálgæslu hjá prestinum sínum og leitar reglulega til sálfræðings.
Við sem þekkjum Björk og stöndum henni næst virðum það hversu stolt og sterk hún er. Björk töffari. En við vitum líka hversu erfið fjárhagsstaða hennar er eftir áralanga baráttu við krabbameinið. Ekki bætti það stöðuna þegar sambýlismanni hennar var sagt upp í vinnu vegna niðurskurðar.
Við höfum því fengið Björk til að samþykkja fjársöfnun henni til handar. Okkur þykir mikilvægt að reyna að létta af henni fjárhagsáhyggjum svo hún geti einbeitt sér að baráttunni við krabbameinið. Það er okkar einlæg von að létta megi Björk lífið. Þannig aukast líkur á að hún sigri þessa lotu.
Við trúum því að margt smátt geri stórt og biðlum til ykkar að leggja inná bankareikning sjóðsins. Gerum það fyrir Björk.
Reikningsnúmerið er 0311-13-685
Kennitala: 060762-5119
Bloggar | Breytt 15.5.2009 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Frá töffaranum !
13.5.2009 | 23:05
Mig langar að setja nokkur orð hér inn á styrktarsíðuna mína,sem ég samþykkti að mínir nánustu ættingjar og vinir mundu opna með mínu leyfi. Til að byrja með var ég ekki tilbúin í þetta, en í ljósi aðstæðna minna í dag ákvað ég að láta tilleiðast.
Ég var hvött áfram af mörgum og meðal annars af öðrum sem hafa gert slíkt hið sama. Ég veit að þetta er stórt skref og eflaust margir sem hafa eitthvað út á þetta að setja.
En ég hef einungis ákveðið að hugsa um mig og mína í þessu samhengi og þar sem fjárhagurinn minn hefur verið mjög erfiður undanfarin ár þá hef ég ekki um margt að velja.
Mig langar að geta átt einhvern gæðatíma með mínum nánustu, án þess að vera að farast úr áhyggjum, nóg er nú samt.
Krabbameinið mitt verður ekki læknað, það er orðið alveg ljóst og nú vinna læknarnir að því hörðum höndum að halda því í skefjum. Ég hef þurft að fara í gegnum marga erfiða dali í þessari göngu minni og það hefur kostað bæði fjárhagsáhyggjur og andlega byrði. Sálin mín þolir ekki mikið meira álag.
Þar sem ég veit sjálf að ástandið í þjóðfélaginu hefur ekki verið gott í langan tíma þá finnst mér enn erfiðara að biðja um hjálp. En margt smátt gerir eitt stórt og það hefur svo oft sannast hér á okkar landi að samkenndin er mikil þegar á reynir. Því biðla ég til ykkar kæru landsmenn að hjálpa mér til þess að eiga áhyggjulausan tíma það sem eftir er.
Enginn veit hvenær kraftaverkin gerast. Ef ég lendi í einu slíku mun þessi sjóður verða notaður til styrktar öðrum sem eiga um sárt að binda og mun ég tilnefna styrktarsjóð krabbameinsveikra barna í því tilefni.
Sambýlismanninum mínum var sagt upp störfum og er því atvinnulaus í dag. Hann hefur stutt mig með ráðum og dáð eins og hann best getur, en þetta var í raun annað áfall fyrir okkur. Því er meiri ástæða fyrir mig að þiggja þessa hjálp sem gæti létt mér lífið svo gríðarlega mikið.
Fyrirfram vil ég biðja guð að blessa ykkur og þakka fyrir stuðninginn í minn garð.
Ást og virðing.
Björk töffari blog.central.is/bjorkandersen
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)